mánudagur, febrúar 28, 2005

Ath. Þeim sem ekki hafa áhuga á bílaviðgerðum er ráðlagt frá því að lesa eftirfarandi texta

Eins og áður hefur komið fram, væntanlega mjög oft, er miðstöðin í bílnum mínum ekki búin að vera í lagi í mjög langan tíma. Það veldur ákveðnum erfiðleikum að þurfa að mæta í skólann klukkan 8.15 að morgni þegar það er frost úti, skafa af rúðunum innan sem utan og sjá samt EKKI NEITT út um framrúðuna. Þá erum við að tala um að eina leiðin til að keyra svo blindandi er að halda sig sem næst bílnum á undan (elta tvo rauða depla), enda hef ég oft lent í því að keyra upp á kant á Hringbrautinni og yfir hálfu hringtorgin sökum miðstöðvarleysis.

Ég var búin fyrir löngu að harðbanna föður mínum að láta laga miðstöðina, ég ætlaði mér að gera það sjálf. Á sunnudaginn rann upp stóri dagurinn. Ég tók fram BMW 3- & 5 series Service and Repair Manual og fletti upp á mínu vandamáli sem var Heater and air conditioning blower motor -removal, testing and refitting. Viðgerðarverkefnin eru merkt með mismunandi fjölda skiptilykla eftir því hve erfið þau eru, sem betur fer var mitt verkefni eins skiptilykils verk sem er semsagt Easy, suitable for novice with little experience.

Eftir að hafa lesið verklýsinguna og spurt pabba út í allt sem ég skildi ekki, sem var eiginlega allt þá sagði ég við hann Eigum við að koma út í bílskúr og rífa miðstöðvarmótorinn úr? Hans svar var Við??? Þú sagðist ætla að gera þetta! En ég náði að sannfæra hann um að hann yrði að minnsta kosti að vera hjá mér á meðan og við drifum okkur út í bílskúr.

Við opnuðum húddið og pabbi rétti mér skiptilykil og sagði Jæja aftengdu rafmagnið. Ég stóð í smástund með skiptilykilinn í hendinni og reyndi að láta líta út fyrir að ég hafði skilið hvað ég átti að gera. Síðan þurfti hann að segja mér betur til, Þura:0, pabbi:1.

Síðan rifum við miðstöðvarmótorinn úr bílnum samkvæmt leiðbeiningum, og það var bara ágætis samvinna því pabbi hafði aldrei rifið miðstöðvarmótor úr áður og stundum var gott að vera sterkur og stundum var gott að vera með litlar hendur.

Ekki svo löngum tíma eftir að við byrjuðum náðum við mótornum upp og komumst að því að hann væri ónýtur þ.e. látinn úr elli. Það fannst mér sorlegt, mig langaði að gera við hann. Ákveðið var að láta þetta gott heita þann daginn og kaupa nýjan mótor daginn eftir gefið að hann yrði ekki dýrari en bílinn sjálfur. Ég labbaði inn svört upp fyrir olnboga og alsæl með dagsverkið.

Í dag reddaði pabbi notuðum mótor og við skelltum honum í á no time og núna virkar miðstöðin í bílnum mínum og ég er reynslunni ríkari og endalaust hamingjusöm með það!!!! :) :) :)

laugardagur, febrúar 26, 2005

[Gaman að því]
Verkfræði-hagfræðidagurinn var í gær. Þá kepptu skorinar í íþróttum og fóru saman í vísó. Hver haldiði að hafi tekið þátt í fótboltanum? Jú jú mikið rétt, engin önnur en ég. Eða jú reyndar tóku fleiri þátt. Fyrr bjóst ég við að sjá svín fljúga heldur en sjálfa mig keppa í fótbolta, ergo það getur allt gerst.

Vísindaferðin var í Mastercard. Þar var afar vel tekið á móti okkur, nóg af áfengi allavega. Þetta var frekar skondin vísindaferð, fyrst kom bjórinn, síðan stutt kynning á fyrirtækinu og svo var tilkynnt að aðeins seinna yrði farið í leik. Humm leikur, gæti verið skemmtilegt... hugsuðum við. Síðan komumst við að því að leikurinn fælist í því að við ættum að sækja um kreditkort hjá Mastercard og síðan fengi einhver einn 25 þúsund kall ferðaávísun. Þetta fannst mér sniðugt af fyrirtækinu, fylla mann og láta mann síðan skrifa undir eitthvað.

Ég var komin vel í glas þegar við komum í bæinn, síðan komst ég betur í glas, og enn betur... Var fyrirfram búin að ákveða að fara snemma heim en var líka búin að steingleyma því um leið og ég varð full. Endaði samt á því að vera alltof full til að geta verið áfram í bænum og ákvað að það væri betra að drepast í rúminu mínu heldur en inni á klósetti á Prikinu (sællra minninga) og fór snemma heim.

Svona er nú áhugavert að vera ég.

fimmtudagur, febrúar 24, 2005

kl. 16.17
Ég hef mesta þörf fyrir að blogga þegar ég verð að gera eitthvað annnað í tölvunni sem er skilafrestur á, eins og núna. Það er engin skilafrestur á blogginu mínu en það er skilafrestur á tölvuverkefninu mínu og hvað er ég að gera núna... gera tölvuverkefni, já.

kl.18.35
Úff hvað heilinn í mér er dáinn, ég á orðið erfitt með að fókusa á skjáinn. Það er aðeins eitt sem læknar það...bjór. En það er víst ekki á dagskrá í kvöld, verð að telja fleiri sviga...

kl. 19.26
Ferillinn minn er svo fínn, hann er rauður og blár og ég get látið hann skrifa Þura, ætli ég geti sett glimmer á hann... Efast stórlega um að til sé matlab-skipunin glimmer() sem geri hluti glansandi... best að prufa samt...

Sprungin!!! Get ekki meir!

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Ég renndi fjóra hluti um daginn, þrjá sem ég kýs að kalla spliff, donk og gengju. Fjórði hluturinn var ró.

Núna kann ég bæði að renna og fræsa, takk fyrir takk og er geðveikt hörð gella. Þeir sem vilja sjá dótið eru velkomnir í heimsókn.

föstudagur, febrúar 18, 2005

Ég er á lífi, ég ER á lífi. Það gerir mig hamingjusama. Núna veit ég að það eru litlu hlutirnir sem skipta máli, eins og þegar nýfæddur kálfur tekur sín fyrstu skref eða vindurinn leikur um akrana... nei bíddu nú við ég er víst ekki Amish. Ég mætti í skólann í fyrsta sinn í laaaaaangan tíma í gær, það var svo gaman að hitta fólk og tala við fólk, ég missti mig næstum því... nei bíddu við það er ekki alveg rétt, ég missti mig.

Ég er samt í drykkjubanni yfir helgina, en það er allt í lagi ég ætla að drekka ógeðslega mikið kók í staðin og borða margar dómínós pizzur (helv**** auglýsing). Þarf líka að mæta á námskeið á þeim ókristilega tíma 8.00 á sunnudagsmorguninn, er það leyfilegt að láta mann mæta á þessum tíma?

Hvern er ég að plata? Sjálfa mig held ég. Drykkjubann er ekkert í lagi, en ég ætla að lifa með því. Hafiði spáð í viljastyrknum sem ég hef!!!

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

[Já ég er ennþá veik]
Mér er búið að leiðast svo endalaust mikið síðustu daga. Ég hef ekkert getað gert nema horfa á vídeó, og þá meina ég ekkert. Það er ömurlegt að vera veik.

Ég missti af hönnunarkeppninni sem mig langaði að sjá, ég missti af ferð til Danmerkur (en eins og Svanhvít bendir réttilega á þá á ég núna meiri peninga til að heimsækja hana til Spánar :) ), ég er búin að missa 6 daga úr skólanum, 2 dæmaskilum (bad shit) og ég missti af Fraiser í gærkvöldi! Gerist það svartara?

Ég býst við að ná upp í skólanum, ef ég byrja núna og held vel á spöðunum, let´s face it aldrei. Of mikið að ná upp, ekki hægt.

Humm þetta er orðið ansi niðurdrepandi blogg hjá mér.

Ókei ég skal róa á jákvæðari mið (get ég sagt svona?), í allan gærdag var mér illt og seint í gærkvöldi sagði móðir mín hingað og ekki lengra og fór með mig á læknavaktina. Þar tók á móti mér þessi líka indæli læknir, hann sagði að ég væri falleg. Ég er svo auðveld...

Ef hann hefði verið 20 - 30 árum yngri þá hefði ég beðið um númerið hjá honum, en ef hann hefði verið 20 -30 árum yngri þá væri hann líklega ekki á vakt hjá læknavaktinni. Easy come, easy go...

föstudagur, febrúar 11, 2005

[Hún náði mér og felldi mig]
Fyrir meira en mánuði var mér boðið í afmæli til lítillar frænku í Danmörku. Ég einsetti mér að sjálfsögðu að mæta og keypti flugmiða dagsettan 12. feb út, það er á morgun. Af gömlum vana keypti ég forfallatryggingu og var hundskömmuð fyrir vikið af mínum föður "Þú veist þú þarft að vera veik í alvörunni til að þetta gildi!" sagði hann. Í dag veit ég ekki hvort ég á að hlægja eða að gráta yfir forfallatryggingunni minni, í dag sit ég veik heima lítils dugandi til annars en að horfa á vídjó, fara á netið og leggja mig á klukkutímafresti eða svo (það er nebblega frekar orkukrefjandi að horfa á sjónvarp). Í dag á ég engan flugmiða. Svona er þetta, flensan náði mér, felldi mig og heldur mér niðri. :(

Samúðaróskir vinsamlegast afþakkaðar, ég er ekki dauð ennþá.

[kosningar]
Vegna heilsuveilu, kaus ég ekki í stúdentakosningunum. Það finnst mér ömurlegt, ég ætlaði að kjósa. Það var 15 sentimetra lagið af snjó á bílnum mínum sem stoppaði mig. Það er of mikið af snjó að ryðja í burtu fyrir veika stelpu.

[...skyn]
Það er eitthvað stórt að fara að gerast. Ég finn það á mér. Eins og dýr flýja frá ströndinni áður en flóðbylgja kemur. Cheerios bragðast öðruvísi, kaffi bragðast öðruvísi, það er skrítið að skrifa á lyklaborðið á tölvunni heima...lyklaborðið er öðruvísi. Kannski er mín skynjun á heiminum bara að breytast. Kannski eftir nokkrar vikur verð ég á kaffihúsi að drekka kaffi latte og þá finnst mér það bragðast eins og ég man eftir að rækjusalat hafi bragðast, og þá segi ég "Hei, síðan hvenær bragðast kaffi latte eins og rækjusalat?" Þetta er ef til vill ekki raunhæf pæling.

[My So Called Life] "spoiler"
Í veikindum mínum hef ég horft í milljónasta of fyrsta skipti á þá þrjá þætti af My So Called Life sem ég man eftir að eiga á spólu. Þeir virka alltaf jafn vel á mig. Það er svo margt sem er gaman að rifja upp eins og að allir kveðjast alltaf (líka fullorðna fólkið) með því að segja later og að hljómsvietin sem Jordan Catalano var í hét Frosen Embryos (Frosnu fóstrin) og hann var alltaf kallaður Jordan Catalano þegar talað var um hann, aldrei Jordan. Líka hvernig orðið like með smá þögn á eftir er ótæpilega notað í hverri einustu setningu, dæmi: It´s like *þögn* afterwards it stopped mattering whether I wanted to. (Setning valin af handahófi)

Ég skil ekki rúv að vilja ekki endursýna þessa snilldarþætti, það er heil kynslóð 12 ára stúlkna að vaxa úr grasi sem aldrei hefur kynnst Angelu sem obsessar yfir öllu sem hún gerir... og gerir ekki, alkóhólistanum Rayanne sem sefur hjá hverjum sem er, "kynvillta" greyinu Ricky sem veit ekki hver sinn staður í lífinu er, sykurpúðanum Jordan Catalano sem bætir upp fávisku sína með guðdómlegu útliti, nördinu Brian sem elskar Angelu en gengur samt sem áður í flauelsbuxum og köflóttri flónel skyrtu (halló árið 1994!) og súper dúber amerísku foreldrunum. Heimska rúv...

Ef einhver á seríuna á dvd eða spólum og vill stytta veikri stúlku stundir, endilega hafið samband.

Þá er búin að blogga um allt sem mér hugsanlega hefur dottið í hug síðustu 5 dagana, þannig að ef ég blogga á næstunni þá verður það líklega um naggrísi eða krossgátuna í mogganum eða lemú.

sunnudagur, febrúar 06, 2005

[welcome in jam *andlit afmyndast*]
Sunnudagskvöld, skítaveður úti, núna er sá tími kominn að ég segi djammsögu, aðallega til að ég þurfi ekki að gera dæmin mín.

Föstudagurinn byrjaði á því að ég skrópaði í öllum tímunum mínum til að ég gæti örugglega mætt á Framadaga og í vísindaferð. Framadagarnir hennar Ernu voru mjög vel heppnaðir, ég reddaði mér reyndar ekki vinnu, en við því var sosum ekki að búast.

Vísindaferð í Kauphöll Íslands var næst á dagskrá, ég fíla fyrirtæki sem byrja á því að gefa manni bjór og halda síðan kynningu á starfseminni. Það eru allir svo miklu afslappaðri og áhugasamari þegar þeir sitja með bjór í hönd að hlusta á fyrirlestur. Annars nær hugsunin ekkert mikið lengra en "hvenær kemur bjórinn!" og maður missir af helmingnum af því sem sagt er. Sem sagt fólkið í kauphöllinni skildi vel þarfir bjórþyrstra verkfræðinema. Ég varð fyrir pínu vonbrigðum þegar ég komst að því að það væri ekkert aksjón í kauphöllinni, engir sveittir gaurar með head set öskrandi "Össur er að hækka, KAUPA NÚNA!" heldur gerist þetta allt á netinu í rólegheitunum.

Rútan eftir vísó fór í partý úti á nesi, hjá stelpu á fyrsta ári sem var tilbúin að hleypa fullt af fólki sem hún þekkti ekki neitt í fína húsið sitt. Tryggvi snillingur reddaði bjór og það var boðið uppá freyðivín og áfengt hlaup. Síðan fann ég flösku í eldhúsinu með bláu áfengi í sem bessi leyfði mér að drekka úr. Allt þetta í bland í mallanum hafði (mis)góð áhrif. Planið hafði verið að draga Ásgeir Röskvuliða í Vöku partýið að drekka frían bjór, það hefði verið stórskemmtilegt. Það voru allir bara svo drukknir að við fórum beint í Röskvuparýið. Þar var svaka stuð, þó að ég sé enn ekki búin að taka pólitíska afstöðu. Rosalega hefur hljómsveitin Norton batnað síðan í mh.

Þegar klukkan var orðin margt fór ég með Elínu á Prikið. Þar hittum við m.a, Kristmund sem er (with all due respect, ég hef ekkert á móti honum svona almennt) mesta karlremba sem ég þekki. Hann hélt því semsagt fram að ég hlyti að vera lesbía fyrst ég væri í vélaverkfræði eða að einhver strákur hefði pínt mig til að fara í þetta nám. Hann vildi ekki trúa því að ég væri að gera þetta sjálfviljug, hefur einhver heyrt annað eins?

Síðasta stopp var að sjálfsögðu kofinn, þar sem ég, Elín og Ingi vorum í góðum gír til lokunnar. Ég missti röddina alveg, en sem betur fer ekkert meira með henni. Þegar kvöldið var búið var ég mjög sátt við að hafa verið undir áhrifum í 12 tíma fyrir aðeins 500 krónur og geri aðrir betur.

[kvöldið eftir]
Hver sagði: "Núll komma fjórir lítrar eru hérna!" *bendir á strikið á glasinu sínu* ?

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Getið hver er búin með sveiflufræðiheimadæmin sín!!! Nú væri gott að fá sér einn kaldan...

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

[gamalt og gott]
Þar kom að því, ég er aftur farin að safna í tilvitnanabókina mína. Þar eru ódauðlegar setningar eins og "He´s her man-bitch!" (höfundur ónefndur ef hann skildi googla sitt eigið nafn ;) ) skráðar og geymdar þangað til allir sem heyrðu eru búnir að gleyma, og lengur.

[veikindi]
Uglan mín er lasin. Ég veit ekki alveg hvort ég eigi að bíða og sjá hvort þetta gangi yfir eða láta mér fróðari einstakling líta á hana. Ég kann ekki á svona veikindi.

[veikindi part II]
Ég held ég sé með rittregðu. Það er óholl veiki, sérstaklega fyrir sálina. Mér dettur aðeins eitt í hug til að lækna mig, ÍS! Það ætti að virka.