þriðjudagur, apríl 21, 2009

Ekki bara Bristol

Um páskahelgina fórum ég og Diogo í smá ferðalag. Byrjuðum á Stonehenge, sem var frekar 'já ókei, er þetta allt og sumt'. Einhvernvegin hafði ég ímyndað mér steinahringinn stærri og steinana sjálfa stærri.
Rútuferðir til Stonehenge eru frá bænum Salisbury. Fyrir neðan er miðaldadómkirkjan.
Næsti viðkomustaður var Bristol, heimabær Banksy (sjá mynd). Einhvernvegin hélt ég áður en ég kom þangað að Bristol væri ógeðslega svöl borg. Og hún var svöl, en öðruvísi svöl.
Mynd af brú (og svo bjór út á svölum og sólbrunnið nef). Jeee.
Ég átti afmæli í gær (takk fyrir allar kveðjurnar), og um morguninn byrjaði ég að panikka að núna væri ég nær þrítugu en tvítugu. Alveg þangað til ég fór að reikna, og fattaði að gerðist fyrir ári þegar ég varð 25. Maður verður eldri, en greinilega ekki vitrari (í mínu tilfelli amk).

Fleiri fréttir fyrr heldur en síðar, yfir og út.

mánudagur, apríl 06, 2009

(Vinna)

Undanfarinn mánuð er ég búin að vera að vinna launalaust sem intern hjá fyrirtæki. Milli þess hef ég verið að undirbúa mig fyrir og fara í atvinnuviðtöl. Sem þýðir að ég hef haft allt of mikið að gera, að koma heim klukkan hálf sjö úr vinnunni og halda áfram að vinna (amk miðað við að hafa lifað mjög rólegu lífi í marga mánuði á undan).

Á miðvikudaginn hætti ég í launalausu vinnunni og byrja í launaðri vinnu daginn eftir. Ekki fagna of snemma, þetta er bara tímabundin vinna í 3 mánuði. En það verður frábært að fá laun, og þurfa ekki að engjast af samviskubiti ef ég kaupi kaffi OG kex á Starbucks.

Það sem er samt skrítnast er að ég byrja í vinnunni á skírdag, einum rauðasta degi ársins samkvæmt íslensku dagatali. Hér eru bara Good Friday og Easter Monday rauðir, og enginn veit hvað skírdagur er, þrátt fyrir einstaklega vel orðaðar útskýringar mínar um síðustu kvöldmáltíðina "you know, the day Jesus had his last meal, and a few years ago there was this phone commercial in Iceland where Judas, like, was late..." Þegar hér er komið við sögu halda áheyrendur vanalega að ég sé að grínast og trúa ekki að skírdagur sé alvöru frídagur.