mánudagur, mars 26, 2007

Rómuð Rómarferð - dagur 2

Annar dagurinn í Róm þ.e. föstudagurinn hófst snemma um morguninn. Rútan í Vatíkanið lagði af stað klukkan 8. Veðrið var dásamlegt, sól logn og þægilegt að vera úti á stuttermabol með bleik sólgleraugu, eins og alla hina dagana reyndar.

Þegar við komum í Vatíkanið settum við upp heyrnartæki til að við gætum ráfað smá en samt hlustað á leiðsögumanninn. Leiðsögumaðurinn leiðsagði okkur í gegnum fullt af ofskreyttum herbergjum með fáránlega vel gerðum málverkum, styttum og skreytingum. Til dæmis var þetta loft svakalegt:
Toppurinn fyrir mig var að koma inn í Sixtínsku kapelluna og skoða loftið. Í mörg ár grandskoðaði ég myndir af þessu lofti og mér fannst mjög gaman að sjá það með eigin augum.

Það var líka svakalegt að koma inn í Péturskirkjuna, ekki einn fersentimeter var óskreyttur. Úti um allt voru risastórar mósaík myndir sem voru það vel gerðar að maður sá ekki að þetta var mósaík nema maður rýndi vel úr stuttri fjarlægð.
Helsti kosturinn við Vatíkanið var samt klárlega allir single gæjarnir: Um hádegisbil rölti allstór hópur af okkur krökkunum að borða á útveitingastað í þrönguhúsasundi. Maturinn var ekkert spes, en lítersbjórarnir sem við drukkum með bættu upp fyrir það. Síðan röltum við þvert í gegnum miðbæinn með viðkomu á helstu torgum þar sem götusölumenn hlupu í burtu um leið og þeir sáu lögguna. Kíktum inn í Pantheon, og stoppuðum reglulega til að drekka bjór. Hér eru nokkrir af krökkunum fyrir framan Pantheon: Hér eru götusalar fyrir framan Pantheon:
Þetta kvöld var árshátíðin sjálf haldin í sal á hótelinu, við Íris lentum á borði hjá 139 og 120 ( þ.e. Óla og Gylfa) sem reyndist vera dáldið fyndið þegar leið á kvöldið. Hér er Óli að lesa bakþankana sem ég skrifaði um hann í Árshátíðar-Fréttablaðið:
Var ég búin að minnast á að ég var með bleik sólgleraugu? Þessi fyrir ofan er ekki ég, heldur einn af þeim sem fengu / þurftu að máta.
Beggi og Íris voru hress þótt þau væru sólgleraugnalaus:
Skemmtiatriðið mitt gekk út á að gera grín að framkvæmdastjóranum, þeim indæla manni. Það gekk svo vel að mér var sagt upp fjórum sinnum þá um kvöldið. Fyndnasta skiptið var þegar Helgi framkvæmdastjóri labbaði til mín við barinn, tók í höndina á mér og sagði "Þuríður það var gaman að vinna með þér, þú skilar bara tímaskýrslunni þinni á mánudaginn."

Hemma og Ásu herbergi var Partýherbergi ferðarinnar, á meðan gerði ég mitt besta að fara á trúnó, því eins og allir vita þá er gott trúnó er betra en nokkurt partý, sérstaklega þegar maður er uppá klæddur.

Um þrjúleytið langaði djammþyrstum Íslendingunum að djamma meira, en ekki hvað. Við tókum leigubíl út um allan bæ og ég veit ekki hvað, en alls staðar var allt lokað. Það var reyndar hægt að kaupa viskí í sjoppu en við vorum ekki það örvæntingarfull. Borðuðum grillaðar samlokur í staðin (Melkorka og Gummi og ég): Ég og Ása og Melkorka þurftum að sýna dáldið mikið að við gætum work-að það:Enda vorum við í svaðalega góðum gír, og einstaklega hressar og dagfarsprúðar:Myndaserían fyrir þennan dag endar auðvitað á mér og Begga að pósa. Mér skilst að við höfum gert örlítið af því í ferðinni:

sunnudagur, mars 25, 2007

Rómuð Rómarferð - dagur 1

Ég legg það á hvorugt okkar, mig eða blogger að skila skýrslunni um Rómarferðina í heilu lagi. Byrjum á byrjuninni og sjáum hvað ég og blogger þolum.

Um helgina á undan þessari helgi fór vinnan mín í árshátíðarferð til Rómar, ég og 115 aðrir máluðu bæinn rauðan yfir heila helgi. Það var t-r-l-t TRYLLT! Sumir aðrir máluðu samt ekki bæinn rauðan.

Ég byrjaði ferðina á því að kaupa mér sólgleraugu í fríhöfninni; stór, með glingri og voðalega BLEIK. Þau tók ég ekki niður alla ferðina, þ.a. restina af sögunni þarf að lesa með það í huga að ég var með bleik sólgleraugu. Svona leit ég út með gleraugun:

Á fimmtudagsmorgni fór ég í skoðunarferð til Pompei. Á leiðinni stoppuðum við og fengum okkur bjór, allavega ég og Óli.

Í Pompei var ég ógeðslega hrædd við dána fólkið sem var úti um allt:

En ekkert fékk stöðvað mig að fara á barinn:

Við fylgdum skiltunum sem vísuðu á hóruhúsið:

Þegar inn var komið gátu menn valið það sem þeir vildu með því að benda á mynd, til dæmis þessa:
Hemmi kom uppgefinn út úr hóruhúsinu:

Eftir strembinn en skemmtilegan dag gerðum við Beggi okkar besta til að líta vel út á myndum:

miðvikudagur, mars 21, 2007

Á Ítalíu...

...eru allir bjórar stórir.

þriðjudagur, mars 13, 2007

When in Rome...

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum vegna þess að bara einn ímyndaði sér söguna um Vífil í síðustu færslu. Reyndar gerði þessi eini Vífli mjög góð skil.

Ég reyni að komast yfir áfallið og "pikka mig upp" svo ég verði nú örugglega hress á árshátíð vinnunnar sem haldin verður í Róm um helgina.

Yfir og út

föstudagur, mars 09, 2007

Vífils ófelgja

Vífill hét maður. [lesandi er vinsamlegast beðinn um að ímynda sér afganginn af þessari sögu. Auða plássið hér að neðan gefur til kynna hversu löng sagan er]


























[Sirka hér væri lokasetning sögunnar staðsett]

miðvikudagur, mars 07, 2007

Fyndin ?

Stundum hlæ ég rosalega mikið að einhverju sem ég sjálf skrifa á msn. Er kannski í vinnunni, sit ábúðafull við tölvuna, þegar allt í einu ég ýti stólnum frá tölvunni og held um magann í hláturskasti. "Gleymdirðu aftur að taka lyfin þín?" spyr Beggi stundum. Ég á erfitt með að svara, hristist bara í ankannalegum hláturskrampa. Eftir að versta hrinan er liðin hjá þá segi ég kannski "Nei, hahahaha, ég var bara að segja fyndið á msn" Þá hristir Beggi hausinn, hækkar í tónlistinni og fer aftur að vinna. Ég lít aftur á msn samtalið og les það sem var svona brjálæðislega fyndið mínútuna áður og það er kannski bara:

Þura says:
eins og hann væri rútubílstjóri

Fyndin ? *hristi hausinn, þurrka vota vanga, fer að vinna*

fimmtudagur, mars 01, 2007

Endaslepptir grashopparar

Ég hef rekist á það öðru hvoru að fólk heldur að ég sé að grínast þegar mér er fúlasta alvara og fúlasta alvara þegar ég er að grínast. Til að forðast þennan misskilning í framtíðinni vil ég taka það fram að mér er aldrei fúlasta alvara, en oft er mér alvara, þá vanalega skemmtilegasta alvara.

Alvara, rosalega er það asnalegt orð. Það hljómar eins og þetta sé nafnorðið "alvari" sem ver mann fyrir öllu.